Íslenska kalkþörungafélagið í samstarf við Retor Fræðslu

Home / Frettir og tilkynningar / Íslenska kalkþörungafélagið í samstarf við Retor Fræðslu

Aneta M. Matuszewska, skólastjóri Retor Fræðslu, Jóhann Magnússon framleiðslustjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, og Hjalti Ómarsson framkvæmdastjóri Retor Fræðslu.

Við kynnum með stolti samstarfssamning við Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal. Markmið samningssins er að gera íslensku að leiðandi tungumáli í samskiptum milli starfsfólks, stjórnenda og viðskiptavina.

Í því skyni mun Retor Fræðsla í samstarfi við Ískalk stuðla að uppbyggingu og stefnumótunarvinnu í tengslum við að gera íslensku að leiðandi tungumáli á vinnustað. Retor Fræðsla tekur að sér að stöðumeta erlent starfsafl, sérútbúa starfstengt námsefni og skipuleggja íslenskukennslu til að ná áðurnefndum markmiðum. Að 60 kennslustunda námskeiðum loknum skilum við af okkur umsögnum um þátttakendur og sýnum framfarir nemenda með tölfræði. Markmiðið er að veita þátttakendum og vinnuveitendum upplýsingar um hvernig hámarka megi árangur á íslenskunámskeiðum.

Samstarfssamningurinn við Íslenska kalkþörungafélagið markar sannarlega sterk tímamót í þróun verkefnisins þar sem um er að ræða fyrsta verkefnið sem fer alfarið fram í fjarkennslu. Kennslan fer fram í fundarsal Ískalk og fer kennsla fram á pólsku og ensku. Við bindum miklar vonir við að verkefnið heppnist með miklum ágætum og að í framhaldi verði hægt að bjóða verkefnið til áframhaldandi þróunar með fyrirtækjum á landsbyggðinni. Þróun verkefnisins er sannarlega lifandi og uppbygging þess með eindæmum ánægjuleg. Það er greinilega mikill vilji hjá fyrirtækjum landsins til þess að móta skýra stefnu um notkun íslenskunnar sem skilvirks samskiptamáta á vinnustöðum.

Við hvetjum ykkur svo eindregið til þess að kynna ykkur starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins með því að heimsækja heimasíðu fyrirtækisins, en hér er á ferðinni virkilega áhugavert og flott fyrirtæki sem vert er að kynnast betur.

Related Posts