Við höldum áfram að gera íslensku að leiðandi tungumáli

Home / Frettir og tilkynningar / Við höldum áfram að gera íslensku að leiðandi tungumáli

Vitundarvakningarverkefnið okkar, sem snýr að því að gera íslensku að leiðandi tungumáli, hefur fengið undirtektir langt umfram væntingar.

Við fengum tækifæri til að fara yfir stöðu þess í Morgunblaðinu á dögunum og látum viðtalið fljóta með hér að neðan.

„Íslenska verði leiðandi tungumál

Eftir því sem erlendu starfsfólki fjölgar á hérlendum vinnumarkaði geta tungumálaörðugleikar látið á sér kræla. Hjá Retor fræðslu er erlendu starfsfólki boðið upp á íslenskukennslu með starfstengdu ívafi, eins og Hjalti Ómarsson framkvæmdastjóri Retor segir frá.

„Retor fræðsla er með vitundarvakningarverkefni í gangi í tengslum við notkun íslenskunnar sem leiðandi tungumáls á vinnustöðum,“ segir Hjalti um íslenskunámskeiðið. „Vegna stefnuleysis stjórnvalda varðandi íslenskuna þá hefur enska tekið yfir á flestum vinnustöðum sem leiðandi samskiptamáti. Um er að ræða afleiðingar þess að stjórnvöld skáru niður styrki til íslenskukennslu fyrir innflytjendur árið 2008 úr 240 milljónum í 120 milljónir árin 2016 og 2017.“

Margir stórir samstarfsaðilar

Markmiðið er að sögn Hjalta að verkefnið sem snýr að því að gera íslensku að leiðandi tungumáli á vinnustöðum verði orðið að opinberri stefnu stjórnvalda innan næstu 2-3 ára. „Til að ná því markmiði stefnum við að því að koma á málþingi einhern tímann næsta vetur með aðilum vinnumarkaðarins um stöðu íslenskunnar á vinnustöðum. Ég stefni að því að Retor Fræðsla ásamt samstarfsaðilum kynni niðurstöður og árangur fyrstu 12 mánaða verkefnisins.“
Aðspurður um helstu samstarfsaðila verkefnisins nefnir Hjalti meðal annarra Domino’s, Subway, Strætó, Kynnisferðir, Landspítalann, Mjólkursamsalan, Carbon Recycling International, Héðinn, Íslenska kalkþörungafélagið, Hagkaup og Matvís.
„Við ætlum að ná markmiðum okkar um að gera íslensku að leiðandi tungumáli með því að bjóða erlendu starfsfólki íslenskukennslu með starfstengdu ívafi en jafnframt endurmennta íslenskt starfsfólk um það hvernig nota á íslensku sem skilvirkan samskiptamáta við fullorðna byrjendur í íslensku,“ bætir hann við. „Erlent starfsfólk er oftar en ekki að störfum á gólfinu, eins og það kallast þegar fólk er í framlínunni við afgreiðslustörf og þess háttar. Allt miðar þetta verkefni að því að fólk geti átt hnökralaus samskipti á Íslensku. Lágmarks, praktísk íslenska. Það er það sem við ætlum að byggja þetta verkefni á. Við erum sannfærð um að það geti allir tileinkað sér hana.“

Vill taka verkefnið alla leið

Aðspurður um hvernig undirtektirnar hafi verið segir Hjalti þær hafa í einu orði sagt verið „frábærar“ og framar öllum vonum. „Sem dæmi nefni ég þau öflugu fyrirtæki sem hafa gert við okkur samninga, og eru þá ótalin minni fyrirtæki sem hafa gengið til liðs við okkur líka.“
Hjalti er þó ekki tilbúinn að láta staðar numið við svo búið. Hann vill taka þetta alla leið, eins og hann orðar það sjálfur.
„Ég veit að Menntamálaráðuneyti hyggst auka fjárveitingar til íslenskukennslu á næstunni, sem er vel, ekki síst af því við höfum verið að fjalla með jákvæðum hætti um þetta og bent á að það er hægt að ná góðum árangri í kennslunni. Mig langar í framhaldinu að þetta verkefni haldi áfram í þróun, og ég vil að vinnumarkaðurinn og stéttarfélögin komi með inn í verkefnið og gefa því enn stærri vængi. Þess vegna langar okkur að halda málþing í vetur ásamt aðilum vinnumarkaðarins og stéttarfélögunum um stöðu íslenskunnar á vinnumarkaði. Það væri að mínu mati góður stökkpallur til frekari þróunar á verkefninu.“

Sameiginlegt markmið

Að sögn Hjalta er íslenskukennsla leiðin til farsællar aðlögunar innflytjenda hér á landi.
„Við lítum svo á að með skipulagðri, skilvirkri og markvissri íslenskukennslu séum við að stuðla að því að innflytjendur geti verið virkir þátttakendur í vel upplýstu fjölmenningarsamfélagi. Við teljum þar af leiðandi gríðarlega mikilvægt að fjárfesta í þeim mannauð sem falin er í þessum fjölbreytta hóp. Það er rétt að taka það fram að styrkir Menntamálaráðuneytis í íslenskukennslu fyrir innflytjendur eru máttarstólpar umræddrar fjárfestingar,“ bætir hann við. „Um er að ræða einn af lykilþáttunum í tengslum við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og jafnframt eitt af lykilmarkmiðum í starfsemi Retor Fræðslu.“

Related Posts