Nýr skólastjóri hjá Retor Fræðslu

Home / Frettir og tilkynningar / Nýr skólastjóri hjá Retor Fræðslu

Nýr skólastjóri tekur til starfa hjá Retor Fræðslu á næstu dögum, en Anna Maria Kaczmarek tekur formlega við starfinu frá og með 1. Júlí næstkomandi.

Það er óhætt að segja að Anna Maria hafi komið af miklum krafti inn í íslenskt atvinnulíf en hún kom fyrst til Íslands árið 2019. Hún var fljót að ná tökum á íslenskunni og hefur m.a. starfað sem túlkur og sem kennari hjá Fellaskóla. Með henni fylgja nýjar og spennandi áherslur inn í fræðslustarfið hjá Retor. Við gefum henni orðið:

„Ég er mjög spennt fyrir starfinu hjá Retor. Ég sé t.d. mörg tækifæri til að auka aðgengi að íslenskunámi og sérstaklega að námsefni. Ég sé fyrir mér að sameina staðnám og fjarnám á öllum sviðum starfseminnar. Hvort sem það er þjónusta í almennu námi eða sérsniðin þjónusta fyrir fyrirtæki. Það verður spennandi verkefni að innleiða rafrænar upptökur kennslustunda og auka þannig aðgengi nemenda til muna að kennsluefni meðfram námi. Við verðum að gera kennsluefni aðgengilegra utan hefðbundins kennslutíma. Þarfir fullorðinna innflytjenda í íslenskunámi eru fjölbreyttar og við þurfum að gera þeim kleyft að hafa aðgang að glósum, fyrirlestrum, lifandi kennslustundum og öðru efni. Hvort sem fólk er í Strætó, heima hjá sér uppá sófa, í heimalandi eða á öðru ferðalagi.

Meðfram þessari vinnu mun ég einnig innleiða nýjar kennslubækur í starfið. Ég vil leggja áherslu á að hlusta á íslensku, skilja texta og tala.

Hvað varðar íslenska tungumálið þá opnar íslenskukunnátta dyr og tækifæri til aukinnar þátttöku í íslensku samfélagi. Bæði á vinnumarkaði og daglegu lífi. Fólk getur einfaldað sér lífið  með íslenskukunnáttu og mitt hlutverk verður meðal annars að sjá til þess að aðgengi og íslenskunám verði einfaldað og aðgengi fólks að íslenskunámi verði aukið”

Við erum afskaplega spennt fyrir þeim áherslum sem Anna Maria kemur til með að færa fræðslunni hjá Retor og bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa

Related Posts