Draumur að sjá Retor Online verða til

Home / Frettir og tilkynningar / Draumur að sjá Retor Online verða til

Í síðustu viku var tekin ákvörðun hjá Retor Fræðslu um að klára árið 2020 í fjarkennslu. Okkur fannst tímabært að heyra frá Anetu Matuszewska skólastjóra Retor Fræðslu um hvernig henni hefur fundist ganga að bjóða íslenskukennslu í fjarkennslu. Þess ber að geta að síðustu almennu námskeið ársins hefjast 2. nóvember og því fer hver að verða síðastur að finna sitt pláss. En heyrum frá Anetu:

„Það má segja að ákveðinn draumur sé að rætast þegar ég sé þessa þjónustu verða til. Aðstæðurnar sem sköpuðust í mars voru auðvitað langt frá því að vera ákjósanlegar. En staða sem vakti hjá okkur ótta í byrjun, breyttist fljótlega í skapandi og skemmtilega kennsluleið.

Retor Online hefur verið hugmynd hjá okkur í 10 ár. Við höfum alltaf ætlað okkur að þróa hugmyndafræði Retor yfir á fjölbreytt fjarkennsluform. Í mjög stuttu máli þá hefðum við hreinlega aldrei haft tíma og tækifæri til þess að þróa kennsluleiðina án Covid. 

Að byggja upp sterka Online þjónustu á svona stuttum tíma hefði aldrei verið mögulegt nema af því að allir hafa lagt sig 110% fram. Bæði starfsfólk og nemendur eiga hrós skilið fyrir að gera ótrúlega hluti í mjög krefjandi aðstæðum. Ég get ekki sagt annað en að Online kennslan hjá okkur gengur ótrúlega vel og hefur komið okkur öllum skemmtilega á óvart.

Það er frábært að geta búið til eitthvað jákvætt úr þessum ótrúlega krefjandi aðstæðum sem eru í heiminum í dag. Ég hvet alla til að taka framtíðina í eigin hendur. Það eina sem við getum haft áhrif á er hvernig við breytum því sem við getum breytt. Höldum áfram að byggja okkur upp. Höldum áfram að gera eitthvað jákvætt og sköpum okkar eigin tækifæri.

Að lokum langar mig að hrósa öllum fyrir að leggja hart að sér við að tileinka sér nýja tækni og fyrir að fara út fyrir þægindarammann. Fullorðið fólk á öllum aldri er að sýna ótrúlega aðlögunarhæfni. Það eru allir að standa sig svo vel og allir að gera sitt besta, við höldum því áfram. 

Kær Kveðja, Aneta Matuszewska, Skólastjóri Retor Fræðslu“

Related Posts