Landspítalinn gerir samstarfssamning við Retor Fræðslu

Home / Frettir og tilkynningar / Landspítalinn gerir samstarfssamning við Retor Fræðslu

Á myndinni eru Ásta Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs, Þórleif Drífa Jónsdóttir verkefnastjóri mannauðssvið, Beata Czajkowska verkefnastýra Retor Fræðslu og Hjalti Ómarsson, framkvæmdastjóri Retor Fræðslu

Á dögunum gerði Landspítalinn samstarfssamning við Retor Fræðslu. Markmið samningsins er að gera íslensku að leiðandi tungumáli á Landspítalanum.

Í því skyni mun Retor Fræðsla í samstarfi við Landspítalann stuðla að uppbyggingu og stefnumótunarvinnu í tengslum við að gera íslensku að leiðandi tungumáli á starfsstöðum Landspítalans. Retor Fræðsla tekur að sér að stöðumeta erlent starfsafl, sérútbúa starfstengt námsefni og skipuleggja íslenskukennslu til að ná áðurnefndum markmiðum. Að 60 kennslustunda námskeiðum loknum skilum við af okkur umsögnum um þátttakendur og sýnum framfarir nemenda með tölfræði. Markmiðið er að veita þátttakendum og vinnuveitendum upplýsingar um hvernig hámarka megi árangur á íslenskunámskeiðum.

Landspítalinn er að öllum líkindum fjölmennasti vinnustaður landsins en á Landspítalanum starfa um 5000 manns í u.þ.b. 3700 stöðugildum. Við erum vitanlega ákaflega stolt yfir því að fá tækifæri til að starfa fyrir þennan stóra og glæsilega vinnustað og hlökkum til að ná góðum árangri með starfsfólki Landspítalans.

 

Related Posts