Besta fjárfesting lífs míns að læra íslensku

Home / Frettir og tilkynningar / Besta fjárfesting lífs míns að læra íslensku

Aneta fékk tækifæri til að segja sögu sína ásamt því að tala um mikilvægi íslenskunnar í Eflingarblaði janúar mánaðar.

Aneta M. Matuszewska hefur hjálpað fjölda Pólverja við að ná tökum á íslensku og veitt þeim þannig betra tækifæri á að nýta menntun sína og reynslu í samfélaginu hér á landi. Hún er skólastjóri Retor Fræðslu sem sérhæfir sig í íslenskukennslu fyrir innflytjendur en þegar hún kom til landsins fyrir mörgum árum sem au-pair kunni hún ekki málið. Hún segir það hafa verið bestu fjárfestingu lífs síns að læra íslensku. „Ég gæti ekki unnið við það sem ég geri í dag og hafði alltaf dreymt um að gera kynni ég ekki málið.“ Aneta stofnaði Retor Fræðslu árið 2008.

„Við byrjuðum í mjög litlu húsnæði í Kópavoginum en fluttum í 400 fm húsnæði í Hlíðasmára 8 árið 2011, en í því eru fimm fullbúnar kennslustofur. Sex fastráðnir starfsmenn eru við skólann en með verktökum vinna allt að fimmtán manns – segir Aneta M. Matuszewska, skólastjóri Retor Fræðslu við skólann og kennslu. Við sérhæfum okkur í íslenskukennslu ásamt ýmiss konar fræðslu fyrir innflytjendur. Þó að Pólverjar séu vissulega stærsti kúnnahópur Retor Fræðslu þá bjóðum við nú þegar uppá mikla þjónustu fyrir blandaða hópa til dæmis í gegnum fyrirtækjalausnirnar okkar. Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að gera íslensku að leiðandi tungumáli í samskiptum.“

Íslenska opnar dyr inn í framtíðina

„Um leið og ég ákvað að setjast hér að, tók ég þá ákvörðun að læra íslensku – segir Aneta en hún kom hingað til lands sem au-pair og kunni þá ekki stakt orð í íslensku en það auðveldaði henni að hún er enskumælandi. Ég ákvað að gefa Íslandi tækifæri í stað þess að snúa aftur heim og bara prófa að búa hér á landinu og sjá hvernig menningin væri og sjá mér fyrir atvinnutækifærum. Ég vildi kynnast Íslandi betur, ég hugsaði að það væri betra að láta á það reyna heldur en að sjá eftir því. Ég lærði fyrst algjöran grunn í íslensku, stök orð sem ég þurfti að kunna í daglegum samskiptum við fjölskylduna og ég var svo heppin að fá tækifæri til að sitja námskeið.“ Aðspurð af hverju það hafi verið henni svo mikilvægt að læra: Besta fjárfesting lífs míns að læra íslensku, – segir hún – Fyrst og fremst af virðingu og mér fannst það sjálfsagt en einnig því það var næsta skrefið í átt að fleiri atvinnutækifærum. Að mínu mati opnar íslenska margar dyr að því að vera farsæll sem innflytjandi á Íslandi, það er eitt af lykilatriðunum sem hjálpar okkur innflytjendum að byggja framtíð okkar hér á Íslandi.“

Hugmyndin að skóla kviknar

„Ég vann átta ár sem starfsmaður á leikskóla en á þeim tíma var ég líka með fræðslu fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ég fékk því margar hugmyndir að því hvernig mætti bæta þessa þjónustu við samlanda mína og þannig varð skólinn til. Við erum næst stærsti fræðsluaðilinn sem sinnir íslenskukennslu fyrir innflytjendur og stefnum að því að vera í fyrsta sæti. Við erum með um þúsund nemendur á ári en með því að snúa okkur í meira mæli að þjónustu við fyrirtæki náum við til fleiri. Við viljum hjálpa innflytjendum við að læra málið en einnig viljum við breyta viðhorfi ríkisvaldsins til íslenskukennslu og tungumálaverndar hér á landinu. Vegna stefnuleysis stjórnvalda varðandi íslenskukennslu í dag þá tekur enskan yfir á vinnustöðum en það er að gerast í dag. Íslenska er hægt og rólega að deyja á vinnustöðum þar sem innflytjendur eru stór hluti af launafólki sem kemur til landsins og erlendir ferðamenn stór hluti af kaupendum þjónustu og verslunar. Áherslan er lögð á þjónustu en ekki á íslenskunotkun á vinnustöðum.“

Vantar skýrari stefnu frá stjórnvöldum

„Fyrst og fremst þarf að setja meira fjármagn í íslenskukennslu. Framlög stjórnvalda hafa lækkað frá árinu 2008 úr 240 millljónum í 120 millljónir árin 2015–2017 en á sama tíma hefur innflytjendum fjölgað. Ef við gerum ekkert er íslenska í útrýmingarhættu, þetta er fámenn þjóð og við verðum að varðveita tungumálið því hlutir breytast hratt. Að mínu mati það er líka komið að okkur innflytjendum að hjálpa Íslendingum að viðhalda málinu. Það gagnast öllum að hafa samskipti á íslensku og auðveldar öll samskipti milli fólks, í vinnu og í frítíma, til að eignast vini en aðalatriðið er að við innflytjendur fáum að njóta menntunar okkar sem við komum með til Íslands. Að við getum skapað okkur betri framtíð en því miður er mjög margir vel menntaðir innflytjendur og einnig fólk með mikla starfsreynslu sem eru ótalandi á íslensku eftir margra ára dvöl á landinu. Það þarf skýrari stefnu frá stjórnvöldum.“

Auðveldar samskipti

„Eitt af markmiðum okkar er að gera íslenskukennslu að eðlilegum hlut í starfsþjálfun erlends starfsfólks. Það er algjör óþarfi að grípa strax til enskunnar eins og svo oft vill verða. Fólk verður alltaf að hafa samskipti hvort við annað og af hverju ekki að byrja á íslensku. Þar kæmi skýrari stefnu frá stjórnvöldum að gagni. Það þarf að grípa fólk þegar það ákveður að búa hér og hjálpa því að læra málið. Svo það geti unnið við það sem það vill og nýtt þá reynslu og menntun sem það hefur til að skapa sér betri framtíð. Við innflytjendur erum komin til Íslands með bakpoka af reynslu, menntun og hugmyndum en vantar verkfærið sem tungumálið er til að geta opnað pokann og notað það sem er í honum. Annars burðumst við með hann í mörg ár og hann verður þungur á bakinu. Við munum uppskera ríkulega ef við gefum okkur smá stund til að byrja með, annars er hætta á vítahring þar sem við grípum til enskunnar og hún skellur í bakið á okkur innan skamms.“

Viðtalið í heild sinni má finna með því að smella á hlekkinn hér að neðan

http://vefbirting.oddi.is/efling/eflingarblad_1tbl_2018/36/

Related Posts