Retor Fræðsla viðurkenndur íslenskufrumkvöðull

Home / Frettir og tilkynningar / Retor Fræðsla viðurkenndur íslenskufrumkvöðull

Við fengum þann óvænta heiður nýverið að hljóta viðurkenningu Íslenskrar málnefndar vegna frumkvöðlastarfs í þágu íslenskunnar. Okkur þykir ótrúlega vænt um að hafa hlotið þessa viðurkenningu og líður hreinlega eins okkur hafi tekist að hreyfa fjöll. Við finnum fyrir því að við höfum haft meiri áhrif á orðræðu og orðalag í innflytjendamálum en okkur grunaði.

Við höfum ítrekað sett okkur háleit markmið um að uppfæra verkefnið hjá íslenskum stjórnvöldum í takt við almenna nálgun annarra Norðurlanda. Staðreyndin er sú að aðgengi að íslenskunámi fyrir fullorðna byrjendur hefur ekki verið aukið frá 2009. Það þarf þ.a.l. sterk bein til að standa vaktina í þessum málaflokki.

Við fengum þakkir fyrir þrautsegju við tilefnið og okkur þykir það orð lýsa persónueinkennum stjórnenda frekar vel. Við ætlum að nýta þennan mikla meðbyr í að efla viðleitni okkar ennfrekar til að gera íslensku aðgengilegri og skilvirkari fyrir nýja notendur. Þeir sem þekkja til innflytjendamála gera sér grein fyrir því að það eru stóru verkefnin. Við sem þjóð þurfum að gera íslenskunám mun aðgengilegra fyrir fullorðna innflytjendur.

Við hlökkum til að halda áfram að efla framhaldsfræðslu fullorðinna innflytjenda og vinna áfram að uppfærslu íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur með stjórnvöldum og stofnunum landsins. Við megum aldrei gleyma því að íslenska er sveigjanleg, hefur mikla aðlögunarhæfni og við höfum trú á því að með réttri stefnu þá sé framtíð íslenskunnar sterk fyrir alla. Á pólitískum nótum þá hlökkum við til þess að fylgjast með nýrri ríkisstjórn setja þetta stóra mál á oddinn á kjörtímabilinu. Tækifærin fyrir mannauð og atvinnulíf eru gríðarleg.

Stjórnendur Retor Fræðslu eru Aneta Matuszewska, Beata Líf Czajkowska og Hjalti Ómarsson

 

 

Related Posts