Retor Fræðsla býður uppá íslenskukennslu fyrir fullorðna. Skólinn var stofnaður af Pólverjum árið 2008. Hugmynd stofnendanna var að bjóða fullorðnum Pólverjum hærra þjónustustig í íslenskunámi og það hefur alltaf verið eitt af grunngildum skólans. Anna Maria Kaczmarek tók við starfi skólastjóra Retor fyrir 15 mánuðum síðan. Við hittum hana og spurðum út í fyrsta kennsluveturinn, Ísland, íslenskunámið og ýmislegt fleira fróðlegt.
Hvenær fluttir þú til Íslands og hvernig fannst þér að aðlagast Íslandi, íbúum og menningu?
Fyrir réttum fimm árum flutti ég til Íslands. Ég notaði ensku til að tjá mig daglega, en mér fannst ég ekki tilheyra íslensku samfélagi, ég fann fyrir tungumálahindruninni og ég átti ekki marga vini. Ég var einmana. Ég held að flestir útlendingar á Íslandi geti samsamað sig þessu. Ég vissi að ég yrði að læra íslensku ef ég vildi vera fullkomlega hluti af samfélaginu og finnast ég eiga heima í nýju landi. Sonur minn byrjaði líka í leikskólanámi og ég vildi skilja hvað hann sagði á íslensku og eiga samskipti við leikskólakennarana.
Hvernig tókst þér að ná góðum tökum á íslensku?
Tungumálið heillaði mig. Ég var forvitin að vita hvað hvað orðin þýða, til dæmis í auglýsingum um Strætó. Ég held að þessi forvitni hafi gert það að verkum að íslenskunámið varð að ástríðu og byrjaði að læra á hverjum degi. Ég setti mér æ hærra tungumálaviðmið og eftir tvö ár á Íslandi innritaðist ég í íslenskan háskóla. Ég valdi að læra kennslu, alfarið á íslensku, sem var mjög krefjandi. Eitt af því sem ég lærði var að villast í tungumálinu, sökkva sér niður í það. Við þurfum að umkringja okkur nýju tungumáli á alla kanta. Hlusta á útvarp, sjónvarp, lesta bækur, dagblöð og tímarit eins oft og við getum, helst á hverjum degi. Undirstaðan er að sækja námskeið og gera æfingar sem eru td aðgengilegar á icelandiconline.
Annað ráð mitt er að hætta að nota ensku í samskiptum. Dæmigert vandamál er að þegar Íslendingar heyra erlendan hreim skipta þeir sjálfkrafa yfir í ensku. Sá sem vill læra verður að setjast í bílstjórasætið. Ég sagði t.d alltaf að ég talaði íslensku og að ég skildi ekki ensku. Þá reyndi fólk að útskýra vandamálið fyrir mér á einfaldara máli eða jafnvel sýna mér hvað þyrfti að gera. Mikilvægast er að gefast ekki upp og læra markvisst. Það er mikilvægt að tala íslensku þó hún sé ekki málfræðilega rétt. Ekki hafa áhyggjur af því að segja eitthvað rangt. Mistökin eru mikilvægur partur af bætingum.
Hvað finnst þér um þróun Íslands sem fjölmenningarlands?
Ísland er að mínu mati mjög vinalegt og opið land. Ísland er á sinni leið eins og heimurinn allur. Ég hef oft heyrt Íslendinga hrósa þjóðinni okkar fyrir að vera dugleg. Þeir kunna að meta okkur sem starfsmenn og bregðast mjög jákvætt við skuldbindingu Pólverja um að læra tungumálið. Íslenskar konur styðja t.d. vel við bakið á erlendum konum, það er hægt að treysta á hjálp þeirra. Í fyrra kynntum við ókeypis námskeið fyrir konur úr kvennaathvarfinu. Ég vona að þannig getum við hjálpað öðrum konum að líða betur og byggja sjálfstraust upp með þeim.
Er íslenska erfitt tungumál að læra fyrir Pólverja?
Að mínu mati er íslenska erfitt tungumál, en pólska er erfiðari. Þetta er allt annað tungumál en það sem við lærðum í skólanum í Póllandi. Mér sýnist að fólk sem býr á Norðurlöndum eigi auðveldara með að læra íslensku. En sú staðreynd að þetta er erfitt tungumál ætti ekki að draga úr okkur kjarkinn, það er alltaf þess virði að fara í þessa vinnu. Það eru margir fullorðnir sem hafa sótt íslenska skóla þegar þeir voru ungir og tala nú íslensku reiprennandi. Það auk fjölda Pólverja sem hafa flutt til Íslands og lært íslensku, hvort sem það er til að bjarga sér, komast betur inn í íslenskt samfélag eða skapa sér betri tækifæri í vinnu, ætti að gefa okkur hvatningu um að við munum líka ná árangri. Ég hvet alla til að halda áfram að læra!
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum við þá sem eru að hugsa um íslenskunám?
Mig langar að hvetja fólk til að fara með opnum og jákvæðum hug í íslenskunám. Ég veit að það er mismunandi fyrir fólk að aðlagast, fólk kemur úr mismunandi aðstæðum og er með ólíkan bakgrunn. Ég veit líka að það getur verið krefjandi fyrir innflytjendur að aðlagast sama hvaðan við komum. En við getum hjálpað okkur sjálfum með því að faðma þetta litla krúttlega land og íbúa þess, læra íslensku, taka þátt í samfélaginu. Hafa hugsjón, gera samfélagið betra og vera stolt af uppruna okkar á sama tíma. Fyrir mér er enginn spurning að tungumálið er lykillinn að góðvildinni og tækifærunum sem skapast þegar við tilheyrum samfélaginu. Það er ferðalagið sem mig langar að taka þátt í með nemendum Retor
Forgangsverkefni mitt er að allir hafi aðgang að íslenskunámi og að það sé auðvelt og skemmtilegt. Við bjóðum upp á bæði staðbundin og netnámskeið. Mig langar að deila áhuga mínum á íslensku með öðrum og sýna nemendum mínum hvaða tækni er hægt að nota við nám. Við erum í samstarfi við mörg fyrirtæki og Vinnumálastofnun sem við fáum styrki til námskeiða frá. Margar stofnanir styðja Pólverja við að fá aðgang að íslenskunámi sem er mjög gagnlegt. Við erum í samstarfi meðal annars við Reykjavíkuborg, Kópavog, IKEA og fleiri fyrirtæki. Dagnámskeið fyrir atvinnulausa voru mjög vel sótt. Nemendum okkar líður vel í skólanum og eru áhugasamir um að halda áfram námi.
Fyrsta árið mitt sem skólastjóri Retor Fræðslu var ég mjög upptekin og þróaði skólann okkar áfram. Ég fékk tækifæri til að vinna með frábæru fólki svo við getum haldið áfram ævintýri okkar í íslenskukennslu saman. Ég er mjög spennt að hefja nýtt skólaár og bjóða nemendur velkomna aftur í skólann okkar. Sjáumst í haust!
Anna Maria Kaczmarek